Fara í efni

Samlokur fyrir lautarferðina

27.07.2017

Það er frábært að fara í lautarferð í sumarfríinu. Lautarferðir eru í raun frábær leið til að brjóta upp daglegt líf og ekki kemur að sök að þær er hægt að skipuleggja með stuttum fyrirvara og þannig er hægt að elta upp besta veðrið. En – nestið er samt sem áður lykillinn að góðri lautarferð (og hlýr fatnaður!) og því förum við yfir nokkrar frábærar uppskriftir að samlokum sem henta vel í lautarferðir.

Í lautarferðum þarf nestið að lúta nokkrum einföldum meginreglum. Það þarf að vera hægt að borða nestið án hnífapara og því eru samlokur afskaplega hentugar. Þá þarf nestið að vera sérlega bragðgott, það má ekki þvælast illa þótt það sé ekki borðað næstu 2-3 tímana og það þarf að vera nokkuð fjölbreytt svo allir fái eitthvað við sitt hæfi.

Tómat og mozzarella samloka
Þessi samloka er algjör snilld og það er gott að nota annaðhvort hvítt samlokubrauð eða mjög gróft brauð eins og Fittý. 

Hitið ólífuolíu á pönnu á miðlungshita. Ristið brauðsneiðarnar á pönnunni, setjið mozzarella-sneiðar á brauðið, þroskaða tómata, smá ferskt basil og salt og pipar. Lokið svo samlokunni á meðan botninn ristast. Því næst er samlokunni snúið við og hin hliðin ristuð. Osturinn bráðnar svo og heldur innihaldinu og samlokunni saman. Snilld!

Þegar báðar hliðar á brauðinu eru gullnar raspar maður svo hvítlauk ofan í brauðið. Þetta er afar gott nesti í lautarferðina og virkar bæði vel með svörtu kaffi, pilsner eða hressandi límónaði.

Tófúsamloka
Þetta er óvenjulegur bræðingur svo ekki sé meira sagt en tófú getur hinsvegar verið frábært í samlokur og það er ekki verra ef þér tekst að ljá samlokunni austrænan blæ með smá göldrum.

Grunnurinn í þessa samloku er heimagert salat með rifnum gulrótum og hvítkáli – svona svipað og hrásalat nema án majónesins. Sítrónulögg og edikskvetta henta vel með salatinu og jafnvel smá sykur.

Svo er eins stíft tófú og fæst skorið niður í sneiðar og baðað í einni matskeið af sojasósu, grænmetisolíu, sesamolíu og sítrónugrasi með ögn af hvítlauk. Þetta er svo látið standa í klukkustund og loks steikt á pönnu yfir miðlungshita þangað til fallega brúnað og stökkt ysta lag myndast.

Svo er majónesi smurt á uppáhalds Myllubrauðið og herlegheitunum raðað á milli.

Egg og aspas, því ekki það?
Hér kemur ein óvenjuleg en hún er gríðarlega góð. Þessi samloka er reyndar svo góð að hún hentar prýðilega í heilan kvöldmat. Hún þarf einungis gróft brauð og örlítinn undirbúning.

Best er að byrja á því að harðsjóða egg og snyrta aspasinn. Það þarf að brjóta stökka endann á aspasnum af og jafnvel skera hann í 3-4 sm langa bita.

Saxið rauðlauk og setjið í skál með rauðvínsediki. Sjóðið aspasinn í 6 mínútur, sigtið vatnið frá og skellið svo aspasnum á heita pönnu með smá ólífuolíuskvettu. Steikið aspasinn í 3-4 mínútur. Hann má gjarnan brúnast fallega og því er ágætt að hræra aðeins í honum.

Ristið svo uppáhalds Myllubrauðið ykkar, smyrjið það með Dijon sinnepi, raðið niðursneiddum harðsoðnum eggjum á, smá aspas, sítrónusafa og loks rauðlauknum. Ef það er til smá dill í ísskápnum þá má gjarnan skreyta með því. Ekki gleyma salti og pipar!