Fara í efni

Hvítsúkkulaði- og hindberjadraumur hjónanna

25.04.2023

Sumarið er gengið í garð og ein rómantískasta árstíð ársins þar sem margir kjósa að gifta sig á sumrin, en auðvitað eru brúðkaup líka haldin allan ársins hring. Form brúðkaupsveislunnar getur verið með ýmsu sniði og margar leiðir færar en samt þarf alltaf að huga að ákveðnum atriðum.

Af þeim mörgu atriðum sem ber að hafa í huga þegar brúðkaup er undirbúið þá skiptir skipulagningin höfuðmáli. Oft getur tekið nokkra mánuði að undirbúa brúðkaupsveisluna, enda mikill viðburður í lífi flestra sem eru að ganga í heilagt hjónaband.

Hvort sem verðandi brúðhjón kaupa veisluveigar eða ekki, þykir mörgum fátt skemmtilegra en að setja á sig svuntuna og standa að undirbúningnum sjálf með aðstoð vina og vandamanna.  Oft þarf að vanda til verka og eru vangavelturnar margar, þá sérstaklega í kringum brúðartertuna sjálfa.

Úrvalið af brúðartertum viðrist vera endalaust, allt frá margra hæða hnallþórum yfir í einfaldar og klassískar marsípantertur. Á sama tíma eru margir sem kjósa að baka brúðartertuna sjálf og getur falleg sköpun sem fylgt því hjá laghentu fólki þar sem stórkostleg listaverk eru oft búin til innan veggja eldhússins.

Ef þú ert að fara að gifta þig á næstunni og ert að huga að því að baka brúðartertuna sjálf/ur, þá viljum við hjá Myllunni veita þér ljúffenga uppskrift af einfaldri og einstaklega bragðgóðri brúðartertu.

Hvítsúkkulaði- og hindberjadraumur hjónanna

Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir einni brúðartertu, en ef þarf að gera fleiri tertur er fallegt að hafa þær á misháum kökudiskum.

Innihald:

4 stykki Vínar svamptertubotnar

1 krukka hindberjasulta

250 grömm íslenskt smjör (við stofuhita)

200 grömm Mascarpone rjómaostur (við stofuhita)

1 egg

600 grömm flórsykur

250 grömm hvítt súkkulaði

3 teskeiðar vanilludropar

Aðferð 1:

  1. Smjörinu og rjómaostinum er þeytt vel saman í u.þ.b. 3-4 mínútur.
  2. Flórsykrinum og egginu er bætt við og þeytt áfram í u.þ.b. 3-4 mínútur eða þar til kremið er orðið loftkennt.
  3. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði og passið að kæla það í smá stund áður en því er blandað saman við loftkennda kremið.
  4. Súkkulaðinu og vanilludropunum er næst bætt saman við og blandað varlega, en vandlega saman í 3-4 mínútur.
  5. Gott er að kæla kremið inni í ísskáp í u.þ.b. 20 mínútur og þeyta það snögglega að nýju áður en það er notað.

Aðferð 2:

  1. Setjið hindberjasultuna á fyrstu þrjá svamptertubotnana og dreifið vel.
  2. Sprautið/setjið krem á fyrstu þrjá svamptertubotnana og dreifið varlega úr kreminu þannig að yfirborðið sé nokkuð slétt.
  3. Raðið fyrstu þremur svamptertubotnunum saman og bætið við fjórða og síðasta svamptertubotninum sem efsta lagi tertunnar.

Aðferð 3:

  1. Sprautið kremi meðfram jaðrinum á tertunni og fyllið upp í „eyðurnar“ á hliðunum þannig að tertan verði jöfn/bein á hliðunum.
  2. Næst er farið í það að hjúpa tertuna til að gera hana jafna og gott er að vera með góðan spaða eða nokkuð slétta sleif í það verk.
  3. Kreminu er smurt jafnt og þétt meðfram jaðrinum/hliðunum á tertunni og í þessu tilviki er tertan „nakin“ þar sem ætlunin er að láta tertubotnana sjást í gegn.
  4. Næst er kreminu sprautað á efsta lag tertunnar og þar má það vera þykkara en því sem nemur hliðunum á tertunni.
  5. Notið spaða eða sleif til að mynda slétt og fallegt yfirborð.
  6. Í síðasta skrefinu er komið að skreytingum, ef þið viljið hafa skreytingar á tertunni. Það er tilvalið að skreyta þessa útgáfu af brúðartertu með lifandi blómum eða ferskum hindberjum.