Núna styttist í 17. júní og eflaust mikið af veislum í kringum þjóðhátíðardag okkar Íslendinga. Við hjá Myllunni vitum að brauðréttir spila oft stórt hlutverk í veislum og er tilvalið að skella í einn einfaldan og góðan brauðrétt til að hafa á boðstólum.
Fyrir stuttu síðan birtum við færslu með uppskrift af ómótstæðilegum köldum brauðrétti. Að þessu sinni viljum við veita þér frábæra uppskrift af bragðgóðum og öðruvísi brauðrétti sem kemur virkilega á óvart og myndi henta í þjóðhátíðarveislu þína.
Heitur ostabrauðréttur
2 stk. Rúllutertubrauð frá Myllunni
1 stk. hvítlauksostur
1 stk. Mexíkó-ostur
1 askja Camembert-smurostur
2 dl. rjómi
1 bréf pepperoni
1 askja hunangskinka
1 blaðlaukur
2 rauðar paprikur
½ poki rifinn pizza-ostur
rifsberjasulta
græn vínber
Aðferð:
- Afþíðið rúllutertubrauðin og hitið ofninn upp í 200 gráður (blástursofn).
- Skerið ostana niður í bita og blandið þeim saman við rjómann ásamt Camembert-smurostinum í potti og látið ostana bráðna undir meðalháum hita.
- Skerið pepperoni og hunangsskinku í litla strimla og blandið saman við ostablönduna þegar hún hefur alveg bráðnað.
- Skerið paprikurnar smátt niður ásamt blaðlauknum og blandið saman við ostablönduna.
- Rúllið rúllutertubrauðunum út og dreifið ostablöndunni jafnt yfir, rúllið svo rúllutertubrauðinu varlega saman og setjið á bökunarpappír á ofnskúffu.
- Dreifið loks rifnum ost yfir og setjið inn í ofninn og bakið þar til osturinn hefur náð að bráðna og rétturinn orðinn vel heitur eða í um það bil 20 mínútur.
- Berið loks fram með rifsberjasultu og vínberjum.