Fara í efni

Fagnaðu góðri útilegu með einstökum pylsu uppskriftum

04.08.2022

Myllan bakar nú í fyrsta skiptið lítil pylsubrauð sem eru afskaplega hentug fyrir fjölbreyttari pylsurétti þar sem með minni brauðum, og minni pylsum eins og Bratwurst, er auðveldara að hesthúsa fleiri ólíkum samsetningum.

Við kíktum því aðeins á hvað gætu verið einstakar samsetningar, eitthvað til að prófa í næstu útilegu, með nýju litlu kartöflupylsubrauðunum frá Myllunni - og þetta var það helsta sem okkur datt í hug til að reiða fram eitthvað fljótlegt, fallegt og einfalt á íslensku sumarkvöldi.

Grunnhráefnin fyrir þá sem vilja ekki breyta út af vananum eru tómatsósa, sinnep, remúlaði, steikur laukur og hrár. Það mætti segja að það sé byrjendapakkinn og engin mun kvarta undan því framboði.

Fyrir lengra komna eru möguleikarnir hinsvegar ótæmandi en við mælum með að prófa þessar fjórar mjög svo einstöku samsetningar, og bjóða upp á þær allar í einu í góðri grillveislu.

Deli-pylsan. Hún er bæversk í sínum stíl. Hér er notast við Bratwurst til að mynda eða jafnvel Thuringer ef hægt er að komast yfir þær, þ.e. pylsur sem eru í Bratwurst ættinni en innihalda oft magurt nautakjöt og svínakjöt og eru mikið kryddaðar og létt reyktar. Með þeim ætti að bjóða súrkál, karrí-sinnep (sem má laga heima með því að blanda karrídufti í díjon sinnep) auk krydds eins og t.d. blöndu af valmúafræjum, sesam fræjum, laukkryddi og salti. Gætið bara að því að grilla þessar pylsur á lágum hita því þær eiga helst ekki að springa. Oft er brugðið á það ráð að úða eða skvetta pilsner á pylsurnar á meðan þær eldast til að þær springi ekki.

Ameríska borgarpylsan. Hér erum við komin á allt annan stað. Pylsan er að eigin vali því hér er það meðlætið sem skiptir mestu. Prófaðu súrsaðann jalapeno, smátt sneidda tómata (ekki með gumsinu), gult sinnep í óhóflegu magni og hráan lauk. Þetta bara getur ekki klikkað.

Suður-ameríska pylsan. Hvaða pylsa sem er virkar líka hér. En meðlætið er óvenjulegt því hér viljum við grillaðan maís (eða úr niðursuðudós ef þægindin eru í fyrirrúmi í útilegunni), pizza ost með kryddi, ferskt kóríander og majónes! Ef að þetta vekur ekki forvitni ykkar, hvað þarf þá til?

Havaí pylsan. Hér erum við með svokallaðan "showstopper". Ef þér líkar við ananas á pizzu þá ertu á réttu róli hér. Hvítu pylsurnar henta best í þetta, eins og bratwurst en pólskar pylsur eru líka mjög góðar, og auðvitað sterk kryddaðar pylsur eins og mexíkópylsur. En annars er þetta einfalt, grillaður ananas (eða úr dós ef þægindin eru ennþá í fyrirrúmi í útilegunni) og rauðlaukur sneiddur í örþunnar sneiðar og svo er sett yfir þetta Teríakí sósa eða jafnvel Sriracha sósa ef þið þorið. Snilld, ekki satt?

Verði ykkur að góðu!