Einn þeirra stóru viðburða sem enn sameina þjóðina er Eurovision. Hvort sem við erum eldheitir aðdáendur eða höfum bara gaman af þessu eitt kvöld á ári er víst að við viljum gjarna gera okkur dagamun þegar kemur að þessari stórskemmtilegu keppni. Er þá ekki tilvalið að finna til heimilisbrauð og setja það í sparifötin? Hér er frábær uppskrift að brauðrétti sem á ekki eftir að slá feilnótu í þinni Eurovision teiti.
Eurovision var fyrst haldið í Sviss árið 1956. Það var Marcel Bezencon sem átti hugmyndina að keppninni en hann vildi að Evrópa gæti sameinast um skemmtiefni eftir hræðilega tíma í álfunni. Hann vildi líka nýta tæknina sem var um þessar mundir að taka stórstígum framförum.
Allt frá fyrstu keppni varð keppnin að fjölskylduviðburði þar sem allir koma saman, ungir og aldnir til að kynnast nýjum tónlistarstraumum og fagna árangri sinna uppáhaldslaga. Flestir vilja þá gera vel við sig í mat og drykk og þá kemur þessi ostaréttur sterkur inn.
Camembert brauðréttur
1 Camembert
¼ rjómi eða matreiðslurjómi
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 bréf skinka
Heimilisbrauð
Heimilisbrauð er rifið og sett í botninn á eldföstu móti. Skerið niður papriku og skinku í smáa bita. Skerið camembertostinn í bita og bræðið hann ásamt rjóma saman í potti. Notið frekar lágan hita og hrærið nokkuð stöðugt. Þegar þetta er bráðið saman er papriku og skinku bætt við og hrært vel. Blöndunni er hellt yfir brauðið og sett inn í ofn. Tilvalið er að bera þennan gómsæta rétt fram með rifsberjahlaupi.
Hví ekki að slá tóninn í þinni Eurovision veislu með þessum gómsæta brauðrétti.