Fara í efni

Bergbys kjúklinga brauðterta

29.03.2023

Útfærslurnar af brauðtertum geta verið óendanlegar eins og kom fram á dögunum þegar Hjördís Dögg Grímarsdóttir, matar- og kökubloggari, hélt stórskemmtilegt námskeið í samstarfi við Mylluna í rúllubrauðtertugerð. Hjördís Dögg er stofnandi www.mommur.is þar sem hún hefur deilt ástríðu sinni fyrir öllu því sem tengist kökum, veisluhöldum og öðru skemmtilegu frá árinu 2008. Hjördísi langaði að liðsinna fólki sem stæði í veisluundirbúningi og á námskeiðinu var lögð sérstök áhersla á rúllubrauðtertur og rúllubrauðtertuskreytingar, þar sem þátttakendur spreyttu sig í rúllubrauðtertugerð og lærðu að gera gómsæta og öðruvísi rúllubrauðtertur.

„Í ljósi þess að fermingartímabilið er hafið og sumarið að nálgast með öllum þeim útskriftarveislum og brúðkaupum sem gjarnan fylgja þeirri árstíð, þótti mér tilvalið að bjóða upp á námskeið eins og þetta. Það er bara svo skemmtilegt að fá að liðsinna fólki að ná fram listrænum hæfileikum þeirra í eldhúsinu“ – segir Hjördís Dögg, stofnandi mömmur.is.

Brauðtertubrauðið frá Myllunni hefur lengi verið vinsælt í brauðtertugerð á meðal Íslendinga, en á námskeiðinu notaðist Hjördís Dögg við rúllutertubrauð Myllunnar.

„Mér þykir dásamlegt að skapa í eldhúsinu og vildi sýna nýja nálgun á útfærslum af klassískum og bragðgóðum brauðtertum. Mér finnst sérstaklega gaman að hugsa aðeins út fyrir boxið hvað varðar samsetningu bragðs og einnig að skapa fallegar veisluveitingar. Það er frábært að  liðsinna fólki að sjá það sem er hægt að skapa með því að hleypa hugmyndarfluginu lausu“ – segir Hjördís Dögg, stofnandi mömmur.is

Hjördís Dögg deilir með okkur uppskrift af Bergbys kjúklinga brauðtertu

Bergbys kjúklinga brauðterta

 

 

  • 2 rúllutertubrauð frá Myllunni
  • 2 dósir beikonsmurosti
  • Lambhaga salat
  • 1 flaska sætt Bergbys sinnep
  • 1 dós majónes
  • 1 krukka Mangó Chutney
  • 1 askja rifinn Mexíkó ostur
  • 1 lítil krukka rautt pesto
  • 1 poki rifinn ostur
  • ½ poki grænmetissnakk
  • 1 askja kjúklingastrimlar

 Aðferð:

  1. Byrjað er á því að slétta úr rúllutertubrauðunum og skera þau í tvennt, þannig að það myndast fjögur lög af rúllutertubrauðinu.
  2. Beikonsmurosturinn er smurður yfir fyrsta lagið af rúllutertubrauðinu ásamt sæta Bergbys sinnepinu, svo er Lambhagasalatið lagt yfir og í kjölfarið er annað lagið af rúllutertubrauðinu lagt ofan á.
  3. Majónesið er smurt jafnt og þétt yfir rúllutertubrauðið ásamt Mangó Chutney sósunni. Næst er rifna Mexíkó ostinum dreift yfir og svo kjúklingastrimlunum. Í kjölfarið er þriðja lagið af rúllutertubrauðinu lagt ofan á.
  4. Beikonsmurostinum er smurt yfir rúllutertubrauðið ásamt cirka ¾ af rauða pestóinu og Bergbys sinnepinu. Lambhagasalatið er lagt yfir og rifni osturinn er dreifður yfir. í kjölfarið er fjórða lagið af rúllutertubrauðinu lagt ofan á.
  5. Majónesinu er smurt yfir síðasta lagið af rúllutertubrauðinu. Blandið saman restinni af rauða pestóinu við örlítið af majónesi og smyrjið yfir. Dreifið Lambhagasalatinu yfir og í lokin er grænmetissnakkinu stráð yfir til skreytingar.