Nú renna jólaterturnar frá Myllunni út í verslunum enda erum við komin með prufubásana okkar svo fólk geti prófað fleiri gerðir. Í óformlegri skoðanakönnun okkar í októberlok kom fram að sú græna væri almennt vinsælust en 47% viðskiptavina okkar kjósa hana helst. Sú hvíta hinsvegar, sem við viljum fjalla um núna, nýtur hinsvegar nokkuð öruggs fylgis en 19% sögðust kunna best að meta hana.
Hvíta jólatertan er með sveskjusultu en í íslenskri baksturshefð er þessi hvíta yfirleitt til með annað hvort sveskjusultu eða rabarbarasultu. Á Vísindavef Háskóla Íslands má sjá að jólaterturnar ganga reyndar undir mismunandi nöfnum. Hjá eldri kynslóðum eru þær gjarnan kallaðar lagkökur og í Suður-Þingeyjarsýslu eru þær meira að segja kallaðar niðurskornar brúnar eða niðurskornar hvítar, sem ætti þá augljóslega við um okkar jólatertu með sveskjusultunni.
Það sem er hinsvegar áhugavert við þetta allt saman, samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands, er að það eru til miklu fleiri heiti um hvítu jólaterturnar en þær brúnu. T.d. er þessi hvíta oft einfaldlega nefnd sveskjuterta en þrátt fyrir það virðist ekki vera talað um rabarbaratertu fyrir þessa með rabarbarasultunni. Þá heyrist einnig nokkuð oft talað un vínartertu og samkvæmt Vísindavefnum er hún ómissandi á jólum hjá Vestur-Íslendingum. Og það eru fleiri nöfn, randa, randabrauð, randakaka og randalín eru einnig þekkt heiti hvítu jólatertunnar samkvæmt Vísindavefnum.
En hvað sem þú kallar hvítu jólatertuna okkar, þá geturðu gengið að henni vísri út í næstu verslun og notið hennar með þínum nánustu.