Fara í efni

Veldu vörur sem bera Skráargatið

31.03.2025

Skráargatið er opinbert, samnorrænt merki sem finna má á umbúðum fjölda matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna. Markmiðið með Skráargatinu er að auðvelda neytendum að velja hollari matvöru á einfaldan og fljótlegan hátt. Skráargatið er einnig hvatning fyrir matvælaframleiðendur að þróa hollari vörur.

Með merki Skráargatsins er ekki verið að hvetja neytendur til að velja einn matvælaflokk umfram annan, heldur að velja hollari valkost innan hvers matvælaflokks. Skráargatið er ekki merki um að vara sé holl í heildina heldur að hún sé betri valkostur innan síns vöruflokks. Til dæmis er skráargatsmerkt brauð betra val en annað brauð án merkisins, en það þýðir ekki að brauð sé ákjósanlegasta fæðan fyrir alla.

Neytendur geta treyst því að vörur merktar Skráargatinu séu hollari en aðrar vörur í sama flokki, sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Skráargatsmerktar vörur henta bæði fyrir börn og fullorðna en mikilvægt er að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og velja úr öllum fæðuflokkum daglega.

Vörur merktar Skráargatinu geta því stuðlað að bættri heilsu með bættu mataræði en einnig leiðbeint neytendum að velja hollari kost. Vörurnar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi innihald næringarefna sem eru eftirfarandi:

  • Minni og hollari fita
  • Minna salt
  • Minni sykur
  • Meira af trefjum og heilkorni

Af hverju að velja Skráargatið?

Neytendur sem fylgja Skráargatinu reglulega geta á einfaldan hátt dregið úr neyslu óhollra næringarefna eins og viðbætts sykurs og salts, aukið trefjaneyslu og valið vörur sem innihalda hollari fitusýrur. Þetta stuðlar að betri heilsu, jafnvægi í mataræði og minnkaðri hættu á lífsstílssjúkdómum eins og sykursýki, háum blóðþrýstingi og hjarta- og æðasjúkdómum.

Þar sem innkaup geta oft verið flókin og tímafrek veitir Skráargatið auðvelda og skjótvirka lausn til að taka hollari ákvarðanir í búðinni. Ef þú vilt stuðla að heilbrigðari lífsstíl fyrir þig og fjölskylduna, getur það verið góð byrjun að hafa augun opin fyrir þessu gagnlega merki í næstu verslunarferð.

Við hjá Myllunni bjóðum upp á gott úrval af vörum merktum Skráargatinu. Við hvetjum þig eindregið til skoða þær vörur í næstu innkaupaferð.