Fara í efni

Vantar þig hugmynd að eftirrétt fyrir áramótaveisluna?

30.12.2024

Gamlárskvöld er hápunktur hátíðarhaldanna þar sem fjölskyldur, vinir og vandamenn koma saman til að kveðja gamla árið með glæsibrag. Á hátíðarborðinu skipa eftirréttir oft stóran sess og eru þeir mikilvægur þáttur af því að gera kvöldið eftirminnilegt.

Margir leggja áherslu á að velja sérstakan eftirrétt til að ljúka hátíðarhöldunum með stæl og njóta góðra veisluveigar í leiðinni.

Aðalatriðið er að velja eftirrétt sem gleður bragðlaukana og skapar minningar sem endast fram á nýtt ár. Sætur endir ársins er í höndum hvers og eins og fyrir þá sem vilja gera eitthvað sérlega glæsilegt má útbúa hátíðar rjómatertu eða fullkominn áramótaís.

Sætur eftirréttur er fullkomin leið til að kveðja árið sem er að líða og hefja það nýja með sætum hætti.

Við hjá Myllunni viljum gefa þér ljúffengar og bragðgóðar hugmyndir fyrir áramótaveisluna þína. Hér á ferðinni eru einfaldar og einstaklega góðar uppskriftir sem slá í gegn og kæta bragðlaukana, auk þess hentar uppskriftirnar öllum aldurshópum. Í þessum uppskriftum eru innihaldsefnin fá og leiðbeiningarnar einfaldar.

Hátíðar karamellurjómaterta

3 stk. Myllu marengsbotnar 

700 ml. rjómi

4 msk. flórsykur

1 askja jarðarber

½ askja bláber

6 stk. kókosbollur

Dumle karamellusósa

1 poki Dumle karamellur

200 ml. rjómi

Aðferð:

Byrjaðu á því að búa til Dumle karamellu sósuna.

  1. Bræddu Dumle karamelluna og rjómann saman í potti við meðalháan hita þar til karamellurnar leysast upp. Það er gott að hræra vel upp í sósunni í lokin með písk.
  2. Leyfðu sósunni að ná stofuhita áður en kakan er sett saman. Það getur verið gott að setja sósuna inn í ísskáp í smá stund.
  3. Þeyttu rjómann og bættu við flórsykrinum í lokin.
  4. Kókosbollunum er bætt við rjómablönduna og hrært varlega saman.
  5. Skerðu jarðarberin í smáa bita og blandaðu 2/3 saman við rjómablönduna.

Samsetning:

  1. Settu örlítinn rjóma í miðjuna á kökudisknum og legðu fyrsta marengsbotninn á kökudiskinn, en þetta er gert til að marengsbotninn sitji kyrr á kökudisknum. Skiptu Dumle karamellusósunni upp í u.þ.b. þrjá hluta og dreifðu 1/3 af Dumle karamellusósunni yfir botninn.
  2. Skiptu rjómanum í tvo hluta. Dreifðu fyrri hluta af rjómablöndunni yfir marengsbotninn, síðan er annar marengsbotninn lagður yfir og 1/3 af Dumle karamellusósunni er dreift yfir marengsbotninn.
  3. Dreifðu seinni hlutanum af rjómablöndunni yfir og tylltu þriðja og síðasta marengsbotninum ofan á.
  4. Dreifðu síðasta hlutanum af Dumle karamellusósunni yfir og skreyttu með restinni af jarðarberjunum og bláberjunum. Gott er að leyfa tertunni að hvíla u.þ.b. þrjár klukkustundir í ísskápnum þangað til hún er borin fram.

 Áramótaís

5 stk. egg

100 gr. ljós púðursykur

2 tsk. vanilludropar

500 ml. rjómi

2 msk. flórsykur

300 gr. Myllu Jólaterta af eigin vali

1 askja jarðarber

½ askja bláber

Aðferð:

  1. Skerðu jólatertuna í smáa bita og legðu til hliðar, gott að miða við 250 gr. sem fer í ísinn sjálfan og 50 gr. til að skreyta þegar ísinn er borin fram.
  2. Aðskildu eggin og legðu eggjahvíturnar í skál til hliðar.  
  3. Stífþeyttu eggjarauðurnar og púðursykurinn þar til blandan er orðið létt og ljós. Bættu vanilludropunum saman við í lokin.
  4. Þeyttu rjómann og þegar hann er að verða tilbúin bætir þú flórsykrinum við.
  5. Blandaðu eggjarauðublönduna saman við þeytta rjómann ásamt jólatertunni.
  6. Stífþeyttu eggjahvíturnar og blandaðu þeim varlega saman við rjómablönduna með sleif.
  7. Plastaðu formkökuform og helltu ísblöndunni í formið og settu strax inn í frystirinn eða að lágmarki í fimm klukkustundir.
  8. Til að forðast ísnálar er gott að hræra reglulega í ísblöndunni með pinna og viðhafa hringlaga hreyfingar á u.þ.b. á 30 mín. fresti.
  9. Þegar bera á ístertuna fram tekur þú hana úr forminu. Það er sniðugt að snúa ísnum á hvolf úr forminu og skera ísinn í sneiðar.
  10. Loks berðu fram áramótaísinn með ferskum niðurskornum berjum og jólatertukurli.