Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og hefur verið haldin árlega síðan 1996. Er hún fyrsta laugardag eftir hið eiginlega afmæli borgarinnar sem er þann 18. ágúst. Markmið hátíðarinnar er að hvetja borgarbúa til þátttöku með því að beina kastljósinu að því fjölbreytta og ríkulega framboði af viðburðum og kraftmikilli menningarstarfsemi sem borgin hefur upp á að bjóða.
Menningarnótt hefur með tímanum orðið ein stærsta og fjölmennasta hátíð sem haldin er í Reykjavík en talið er að kringum 100.000 manns sæki hana að jafnaði þar sem gestir og gangandi njóta yfir 400 fjölbreyttra viðburða sem sem íbúar, listamenn, veitinga- og verslunareigendur auk menningarstofnana bjóða upp á þeim að kostnaðarlausu.
Laugardaginn 24. ágúst er dagur menningarinnar í Reykjavík og segja má að hátíðin sé hápunktur sumarsins þar sem skemmtilegir viðburðir lita mannlífið í miðborginni frá morgni til kvölds. Hátíðin er fyrir alla borgarbúa og gesti sem vilja taka þátt í hátíðinni og skemmta sér. Það er orðin hefð hjá mörgum fjölskyldum og vinahópum að mæla sér mót á Menningarnótt og eiga skemmtilegan dag saman.
Þar sem margir leggja leið sína í miðbæinn á þessum degi viljum við hjá Myllunni veita þér tvær einfaldar og ljúffengar uppskriftir af samlokum sem þú getur útbúið í nesti fyrir daginn þegar svengdin fer að kalla. Um er að ræða grænmetissamloku ásamt tómat og mozarella samloku. Þessar samlokur eru algjör snilld og það er gott að nota annaðhvort Heimilsbrauð eða gróft brauð eins og Fittý við gerð þeirra.
Grænmetissamloka
2 brauðsneiðar Fittý samlokubrauð
Lambhagasalat (magn eftir smekk)
1 stk. tómatur
10 stk. gúrkusneiðar
½ rauð paprika
2 msk. létt majónes
Everything bagel seasoning (krydd)
Aðferð:
- Byrjaðu á því að skola grænmetið og þerra. Næst skerðu grænmetið og leggur til hliðar.
- Leggðu brauðsneiðarnar á diskinn og smyrðu þær báðar á aðra hliðina með létt majónesi (sú hlið sem snýr inn).
- Kryddaðu majóneshliðina á brauðsneiðunum með Everything bagel seasoning kryddinu.
- Raðaðu samlokunni saman með því að leggja lambhagasalatið neðst og niðurskorna grænmetið ofan á og lokaðu samlokunni með að setja seinni brauðsneiðina efst.
Tómat og mozzarella samloka
2 brauðsneiðar Lífskorn með heilu hveitikorni og rúg
Mozzarella ostur
3 kirsuberjatómatar
Ferskt basil
2 hvítlauksrif
Salt og pipar
Ólifuolía til steikingar
Aðferð:
- Hitaðu ólífuolíu á pönnu á miðlungshita.
- Ristaðu brauðsneiðarnar á pönnunni þar til þær eru orðnar gullinbrúnar.
- Skerðu kirsuberjatómatana í litlar sneiðar og saxaðu basil.
- Leggðu mozzarella-sneiðar á brauðið ásamt kirsuberjatómatinum og fersku basil. Kryddaðu svo með salt og pipar og lokaðu samlokunni á meðan botninn ristast. Því næst er samlokunni snúið við og hin hliðin ristuð. Osturinn bráðnar svo og heldur innihaldinu og samlokunni saman.
- Þegar báðar hliðar á brauðinu eru gullnar raspar þú hvítlauk ofan í brauðið.