Það er farið að hausta þrátt fyrir að veður víða um land hafi verið með besta móti undanfarna daga. Þrátt fyrir það fölnar lauf með lækkandi næturhita.
Haustið er að margra mati fallegasti árstíminn. Því getur fylgt veðurblíða í bland við stöku haustlægðir. En hvernig sem veðrið verður er alltaf yndislegt að hafa það notalegt um þessa litríku árstíð þegar lífið fer í sínar föstu skorður með skóla og vinnu.
En hvað er passlega haustleg uppskrift, til dæmis til að hafa með í skólanestið nú þegar haustið gengur í garð? Jú, það eru beyglur með graskerjum - fátt er haustlegra en það enda er haustuppskera graskerja að detta í verslanir og grasker, ef rétt er með farið, eru mikið lostæti með beyglum.
Ein leið til að útbúa þessar gómsætu beyglur er að ganga frá töluverðu magni af graskeri og kúrbít t.d. um helgi til að nota í beyglurnar í vikunni í nesti.
Það sem þarf í uppskriftina er eftirfarandi:
Gott grasker eða "squash" grasker.
Geitaostur, helst með rósmarín kryddi ef hann er til (annars má bæta fersku, smátt söxuðu rósmarín við).
Sultaður laukur sem fæst víða tilbúinn út í búð.
Grillaður eða bakaður kúrbítur.
Salat að eigin vali, gjarnan klettasalat.
Og ef þú vilt hafa þetta sérlega matarmikið má vel bæta við smá beikoni, nema þú sért grænkeri augljóslega.
Eina eldamennskan hér sem maður þarf að kynna sér er í raun hvernig elda skal grasker en það fer fram þannig að graskerið er skorið í tvennt, fræin tekin út og helmingarnir eru penslaðir með ólífuolíu og salti og pipar stráð yfir. Þetta má baka í ofni á 200 gráðum í að lágmarki 25 mínútur en tíminn fer eftir stærð graskersins. Þegar hægt er að stinga prjóni í gegnum graskerið er það tilbúið.
Kúrbítinn skal baka í ofni með sama hætti, í 15-25 mínútur en hann er skorinn í sneiðar og fær líka ólífuolíu, salt og pipar til að bragðbæta.
Beikonið matreiðir hver og einn eins og þeim finnst best, í örbylgju, á pönnu eða í ofni - nú eða jafnvel á grillinu.
Þessu má svo raða í hóflegum skömmtum til dæmis á Jalapeno beyglur frá Myllunni í nesti inn í vikuna. Gómsætt haustnesti með haustbragði!