Í kringum jólin nota margir tækifærið til að halda jólaboð þar sem fjölskyldur og vinir koma saman til þess að borða góðan mat og eiga góðar stundir. Mikið af kræsingum má oft sjá í jólaboðum og gestgjafar leggja yfirleitt mikinn metnað í að hafa veisluborðið sem veglegast.
Venjan er oft sú að gestir koma með eftirrétt á veisluborðið og þess vegna ætlum við hjá Myllunni að gefa þér heillandi hugmynd um sannkallaða hátíðar rjómatertu sem slær í gegn hjá öllum. Myllu marengsbotnarnir eru þægilegir fyrir þær sakir að þá má nota á margvíslegan hátt, það eina sem skiptir máli er að leyfa hugmyndafluginu að ráða för.
Í þessari uppskrift eru innihaldsefnin fá og leiðbeiningarnar einfaldar, enda tíminn í eldhúsinu oft knappur.
Hátíðar rjómaterta
3 stk. Myllu marengsbotna
700 ml. rjómi
4 msk. flórsykur
1 askja jarðarber
½ askja bláber
6 stk. kókosbollur
Dumle karamellusósa
1 poki Dumle karamellur
200 ml. rjómi
Aðferð:
Byrjaðu á því að búa til Dumle karamellu sósuna.
- Bræddu Dumle karamelluna og rjómann saman í potti við meðalháan hita þar til karamellurnar leysast upp. Það er gott að hræra vel upp í sósunni í lokin með písk.
- Leyfðu sósunni að ná stofuhita áður en kakan er sett saman. Það getur verið gott að setja sósuna inn í ísskáp í smá stund.
- Þeyttu rjómann og bættu við flórsykrinum í lokin.
- Kókosbollunum er bætt við rjómablönduna og hrært varlega saman.
- Skerðu jarðarberin í smá bita og blandaðu 2/3 saman við rjómablönduna.
Samsetning:
- Settu örlítinn rjóma í miðjuna á kökudisknum og legðu fyrsta marengsbotninn á kökudiskinn, en þetta er gert til að marengsbotninn sitji kyrr á kökudisknum. Skiptu Dumle karamellusósunni upp í u.þ.b. þrjá hluta og dreifðu 1/3 af Dumle karamellusósunni yfir botninn.
- Skiptu rjómanum í tvo hluta. Dreifðu fyrri hluta af rjómablöndunni yfir marengsbotninn, síðan er annar marengsbotninn lagður yfir og 1/3 af Dumle karamellusósunni er dreift yfir marengsbotninn.
- Dreifðu seinni hlutanum af rjómablöndunni yfir og tylltu þriðja og síðasta marengsbotninum ofan á.
- Dreifðu síðasta hlutanum af Dumle karamellusósunni yfir og skreyttu með restinni af jarðarberjunum og bláberjunum. Gott er að leyfa tertunni að hvíla u.þ.b. þrjár klukkustundir í ísskápnum þangað til hún er borin fram.